

Finnst þetta svo fallegt - og sæt hugmynd :) Meira hér
. . . . . . . . . . . . .
Ég hafði prufað einn jógatíma sem unglingur og bitið það í mig að jóga væri sko ekki fyrir mig! Ég kynni ekki að slaka á og fannst þetta hálf kjánaleg líkamsrækt. En þegar ég varð ólétt langaði mig að prufa meðgöngujóga því ég vissi að ég þyrfti á góðum undirbúningi að halda fyrir fæðinguna og þyrfti að læra að ýta burt stressi og kvíða á meðgöngunni. Ég byrjaði snemma hjá Maggý í Mecca Spa, var komin rúmar 19 vikur og ákvað að ýta burt jógafordómunum og mæta með opinn huga. Ég get núna fullyrt, eftir að hafa verið hjá Maggý fram á síðustu viku meðgöngunnar og er nú á öðru mömmujóganámskeiðinu mínu í röð, að þetta hafi verið ein besta ákvörðun sem ég hef tekið.
Meðgöngujógað styrkti mig andlega og líkamlega og fyllti mig sjálfstrausti svo ég fór inn í fæðinguna þess fullviss um að það myndi ganga vel. Fæðingin gekk eins og í sögu, ég nýtti mér öndunina sem við höfðum lært hjá Maggý á meðan ég hafði enn rænu á því og þegar hríðarnar urðu sem verstar varð mér oft hugsað til allra þeirra kvenna sem höfðu verið með mér í jóganu og voru búin að eiga krílin sín – fyrst þær gátu það, þá gat ég það líka!
Sonur minn er þvílíkt rólyndisbarn og grét næstum aldrei fyrstu vikurnar og mánuðina. Ég er handviss um að meðgöngujógað hafði virkilega góð áhrif hann jafnt sem mig, enda gott að kúra í bumbu sem er stressfrí og í góðu jafnvægi. Nú erum við Darri Freyr í mömmujóganu hjá Maggý og það er alls ekki síðra en meðgöngujógað. Áreynsluastminn sem hefur oft látið á sér kræla er nú að mestu hættur að trufla mig þegar ég geng og hleyp því ég kann betur að anda, þökk sé jóganu. Ég hef einnig betri stjórn á vöðvabólgunni sem fylgir því að vera með barn á brjósti því ég er meðvituð um líkamsstöðuna. Auk þess að vera frábær jógakennari er Maggý ein yndislegasta kona sem ég hef kynnst. Hún er hlý og innileg og einlæg í öllu sem hún segir og gerir og mér finnst ég ofsalega rík að eiga hana í mínu lífi.
Ég mæli hiklaust með jógatímunum hjá Maggý! Og ég lofa að vera ekki svona væmin í næstu færslu ;)