Monday, June 7, 2010

1 fataskápur - 1 mánuður


Fataskápurinn minn er furðulegur staður. Þar er að finna ótrúlega skrítin föt sem ég geymi og tími ekki að losa mig við því kannski, bara kannski, mun ég einn daginn vilja nota þau á ný. Þannig kom það sér vel að víða gallaskyrtan hennar mömmu beið mín í mörg ár og er nú mikið notuð!

Ég veit samt upp á mig sökina að þarna eru flíkur sem taka pláss og verða líklega aldrei notuð, a.m.k. ekki af mér. Þess vegna hef ég ákveðið að skella mér í átak! Ég hef mánuð til að klæðast öllu í fataskápnum (þá er ég ekki að tala um hillur og skúffur, heldur bara það sem hangir). Ef ég get ekki hugsað mér að fara í eitthvað í heilan mánuð þá fær viðkomandi flík að fjúka. Í gær fór ég t.d. í sumarlegan kjól sem ég keypti á Mallorca 2005 og notaði nokkrum sinnum. Í lok dags vorum við kjóllinn sammála um að hann skyldi styttur og yrði þá mikið notaður í sumar. Í dag gróf ég upp skyrtukjól sem maðurinn minn keypti handa mér á Tyrklandi. (Ætli flestar flíkurnar sem ég nota lítið séu keyptar í útlöndum?)

Ég hlakka til að eignast "nýjan" fataskáp á næstu dögum - merkilegt hvað margt fallegt gleymist - og hlakka til að búa til pláss fyrir ný föt :)

Ég skora á lesendur að taka þátt í átakinu! - Hver er memm?